Ágreiningur aðila laut að launaflokksröðun A, tónlistarskólakennara, samkvæmt kjarasamningi aðila. K byggði á því að A ætti rétt á grunnröðun í launaflokk 137 og að samkvæmt greinum 1.3.1 og 1.3.3 í kjarasamningi ætti hún að fá viðbótarlaunaflokka vegna framhaldsmenntunar. Skyldi A því raðast í launaflokk 149 að teknu tilliti til 12 launaflokka vegna símenntunar, kennsluferils og launapotts. S mótmælti kröfum K og hélt því fram að réttur til viðbótarlauna vegna framhaldsmenntunar skapaðist ekki fyrr en starfsmaður hefði lokið þriggja ára grunnnámi á háskólastigi. Félagsdómur byggði á því að þar sem að A hefði raðast sem tónlistarskólakennari III á grundvelli burtfararprófs, sbr. skýringarákvæði við grein 1.3.1 í kjarasamningi aðila, ætti hún rétt á viðbótarlaunum samkvæmt grein 1.3.3 fyrir hvert fullt námsár eftir að því prófi hefði verið lokið. Þá væri ágreiningslaust að A hefði lokið fimm námsárum frá háskólum sem uppfylltu skilyrði greinarinnar. Var því fallist á kröfur stefnanda.